Wednesday, April 19, 2017

Nokkrar uppáhalds second hand

Follow my blog with Bloglovin


Þeir sem þekkja mig vel vita að notuð föt eru ástríða hjá mér. Það er ákveðin spenna sem fylgir því að fara í fjársjóðsleit á nytjamarkað og tilfinningin sem fylgir því að finna gersemar á lítinn pening er eins og að vinna í lottó (hef samt aldrei unnið í lottó). Kostirnir við það að versla notuð föt eru óteljandi. Þau eru oft ódýrari en alveg ný föt, margir nytjamarkaðir nota gróðann til þess að styrkja góð málefni og svo er bara einhver sjarmi yfir gömlum fötum. Hér eru nokkrar af mínum uppáhalds flíkum og sagan hvernig þær komust í mínar hendur.

babydoll náttbolur



Þennan bol keypti ég í búð sem hét Hosíló sem var lengi á Selfossi. Ég held ég hafi verið svona 14 ára þegar ég keypti þennan bol og svo endaði hann uppi á háalofti í nokkur ár. Síðustu 3 árin hef ég samt notað hann mjög mikið og elska að klæðast honum yfir rúllukragabol eða kjól. Svona bolir voru mjög vinsæll náttklæðnaður á sjöunda áratugnum (ca 1960). Fyrir mér er þetta hinn fullkomni bolur til að dressa upp eða niður eftir tilefnum.


Ralph Lauren peysa



Ég rakst á þessa peysu á nytjamarkaði í Barcelona þegar ég fór þangað í skólaferðalag í mars á þessu ári og þið trúið varla hvað ég var spennt þegar ég fann peysuna. Þetta var í eitt af þessum skiptum þar sem allir bekkjarfélagar mínir höfðu farið í H&M og ég ekki nennt með. Það leit engan veginn út fyrir að neitt spennandi gæti leynst í þessari búð en ég var ekki búin að róta lengi þegar ég fann peysuna og hún kostaði ekki nema 15 evrur! 

Versace satínskyrta




Þessa gullfallegu satínskyrtu græddi ég þegar kærastinn minn aðstoðaði foreldra vinar síns að taka til í fataskápum heimilisins. Þegar hann nefndi að ég hefði áhuga á gömlum fötum var mér eiginlega skipað að koma og fara í gegnum fötin sem þau ætluðu að losa sig við og ég sé ekki eftir því! Ég hef fengið mjög mikil not út úr þessari skyrtu sem er bæði hrikalega falleg og þægileg. 



Þar til næst
Freydís


Tuesday, March 28, 2017

LUSH haul & review


Um daginn skelltum við vinkona mín okkur í smá skvísuferð til Lundúna og þá var smá verslað. Við fórum meðal annars inn í uppáhalds búðina mína í öllum heiminum - Lush og eyddum þar góðri stund. Fyrir þá sem ekki vita selur Lush ferskar og handgerðar snyrtivörur sem eru 100% vegetarian, cruelty free, náttúrulegar, fair trade vottaðar og margar hverjar vegan. Á heimasíðunni þeirra er líka hægt að sjá lista yfir innihaldsefni og lesa um hvert efni fyrir sig. Lush reynir einnig að nota sem umhverfisvænstar umbúðir. Ég hef áður prófað allskonar bað-bombur, olíur og maska og hingað til fílað flest sem ég hef prófað svo í þetta skiptið ákvað ég að prófa eitthvað alveg nýtt.


Ég keypti mér þetta sjampó sem heitir Jason and the argan oil. Það er vegan sjampóstykki og lyktar SJÚKLEGA vel. Ef ég á að segja eins og er þá batt ég ekki miklar vonir við þetta sjampó, enda bara vön að nota sápur í fljótandi formi en vinkona mín keypti sér alveg eins sjampó og við erum sammála því að Jason er bara helvíti fínn! Held að hárið mitt hafi sjaldan litið jafnt vel út og mér finnst ég þurfa að þvo það sjaldnar. Vegna þess að þetta sjampó er í föstu formi er það ekki selt í umbúðum. Af því að ég ferðast mikið ákvað ég að kaupa svona krúttlega tin-öskju utan um sjampóið og hárnæringuna svo það myndi ekki brotna allt út um allt í ferðatöskunni.

Jason and the argan oil



Hárnæringin sem ég keypti heitir BIG og ber nafn með rentu. Á heimasíðu Lush segir að tilgangur vörunnar sé að láta þér líða eins og hafmeyju og svona úr æskuminningum eru hafmeyjur ALLTAF með fallegt hár. Mér finnst aðeins furðulegra að nota hárnæringu í föstu formi heldur en sjampóið því hún freyðir ekkert það mikið og mér líður einhvern veginn ekki eins og ég sé að setja neitt rosalega mikið í hárið á mér. Þegar ég skola næringuna úr kemur þó í ljós að maður þarf ekkert mikið því hárið verður alveg silkimjúkt. Ég veit ekki hvort ég er ein um það en þegar ég nota venjulega hárnæringu set ég alltaf heilan helling og hárnæringarbrúsinn klárast alltaf langt á undan sjampóbrúsanum en með þessa næringu er eiginlega ekkert hægt að setja of mikið. Eins og sjampóið er hárnæringin vegan sem mér finnst mikill kostur.


BIG



Sjampóið og hárnæringin


Ókei, þetta hljómar kannski smá spes en ég keypti mér tannkrem í töfluformi. Það virkar þannig að maður bryður töflurnar á milli tannanna, bleytir svo tannburstann (valfrjálst) og burstar eins og með venjulegu tannkremi. Ég keypti mér tvær týpur, annars vegar BOOM sem er svart tannkrem og hins vegar Sparkle sem er djúphreinsitannkrem. Mér finnst mjög fínt að nota þessi tannkrem einu sinni á dag því það er ekkert flúor í því og ég finn að ef ég nota það eingöngu verða tennurnar svolítið viðkvæmar en ég er með frekar viðkvæmar tennur fyrir. Það hreinsar tennurnar rosalega vel og ég finn að svarta tannkremið gerir þær extra hvítar. Bæði tannkremin eru vegan.




Síðasta varan sem ég keypti er body lotion/handaáburður sem ber nafnið Charity pot. Ég keypti þetta krem ekki vegna þess að mig vantaði eitthvað krem heldur vegna þess að Lush gefur 100% ágóða þess til grasrótar-góðgerðasamtaka (grassroots charities). Ég ætlaði mér fyrst að gefa mömmu minni þetta krem en þegar ég kom heim frá London vorum við að flytja svo ég var ekkert að pakka upp úr töskunni og þá fór ég í skólaferðalag til Spánar í viku þannig ég eiginlega gleymdi að ég ætti þetta krem. Þegar ég loksins prófaði það langaði mig ekkert að gefa það frá mér því ég mér finnst svo góð lykt af því.


Þar til næst
-Freydís






Monday, February 20, 2017

minimalískar pælingar...


Ég hef lengi haft áhuga á minimalískum lífsstíl og pirra mig oft á því hvað ég á mikið af drasli. Það var aðeins nýlega sem ég fattaði að síðastliðna 6 mánuði hef ég líklega verið minimalískari en nokkru sinni fyrr.

Í lok síðasta sumars seldi mamma húsið okkar og við tók tímabil á meðan við biðum eftir að nýja íbúðin okkar yrði tilbúin þar sem við bjuggum heima hjá föðurafa mínum og ömmu og deildum þar litlu svefnherbergi. Í svefnherberginu var rétt pláss fyrir rúmið hennar mömmu, svefnsófa sem þjónaði mér sem rúm, fataskáp sem við deildum og tvö náttborð. Ég hafði því ekki pláss fyrir nærri því allt dótið mitt og ég held að það hafi verið nokkuð lærdómsríkt fyrir mig.

Þegar við settum búslóðina okkar í geymslu gerði fjölskyldan mín mikið grín af því að helmingurinn af dótinu væru kassar merktir fötum eða skóm frá mér. Ég tók það auðvitað ekkert inn á mig enda föt og tíska áhugamál hjá mér en áhugamál þróast og mitt áhugamál þróaðist frá því að vilja eiga eins mikið af fötum og hægt er. Þó að fötin sem ég tók með mér í upphafi hafi aðeins verið brotabrot af því sem ég setti í geymslu og ég hafi keypt mér nokkrar nýjar flíkur á þessum 6 mánuðum þá hefur fataskápurinn minnkað um allavega helming.

Ef ég pæli í því hvers ég hef mest saknað eru það þó alls ekki fötin. Ég hef eiginlega komist að því að þau skipta mig voða litlu máli. Það sem ég hef án efa mest saknað er rúmið mitt. Þá er ég bæði að tala um húsgagnið og rýmið. Ég kann alltaf meira og meira að meta það að vera alein og ég sé það í hyllingum að geta verið ein í stóra mjúka rúminu mínu með sængurnar mínar og fullt af koddum bara að tjilla. Verja tíma með sjálfri mér án truflanna.


Þegar ég ímynda mér hvernig ég vil hafa herbergið mitt togast ég alltaf nær einfaldleikanum. Ég hafði alltaf hugsað mér að fá mér kannski sófa, vera með snyrtiaðstöðu og fataskáp yfir heilan vegg en núna held ég að ég vilji hafa bara það allra nauðsynlegasta. Hvað það er hef ég ekki alveg fengið á hreint en það kemur líklega í ljós.






-Freydís



Thursday, January 19, 2017

nokkur einkennileg sorgareinkenni


Í janúar í 2016 tók pabbi minn sitt eigið líf. Við tóku mjög súrrealískir tímar hjá mér og fjölskyldunni minni og hefur sorgarferlið verið mismunandi hjá okkur öllum. Sum einkenni sorgarinnar gætu virðst einkennileg en eru þó alveg eðlileg. Hér fyrir neðan eru nokkur atriði sem ég hef fundið fyrir á þessu eina ári síðan pabbi minn dó.

Minni einbeiting
Einbeitingin hjá mér hvarf algjörlega. Ég hef alltaf verið mikill lestrarhestur en árið 2016 las ég ekki eina einustu bók mér til skemmtunnar. Ég einfaldlega hafði ekki einbeitinguna í það. Þegar ég byrjaði svo í skólanum í haust þurfti ég að hafa mig alla við að sinna náminu. Ég á það líka til að detta út og fá störu út í loftið. Þá heyri ég ekkert sem gerist í kringum mig og varla hægt að ná sambandi við mig.

Ótti við höfnun
Ótti við höfnun er eðlileg tilfinning. Ég held að langflestir upplifi þann ótta öðru hvoru. Á tímabili var ég þannig að ég þorði varla að biðja um neitt. Ég átti erfitt með hluti eins og að hafa samband við vinkonur mínar af fyrra bragði eða biðja kennarana mína um skilafresti á verkefnum. Ég sá alltaf fyrir mér að manneskjan yrði reið. Hvaða rétt á ég til að biðja um eitthvað? Að óttast höfnun er tilfinning sem er algjörlega eðlileg en er yfirleitt órökstudd tilfinning. Það var engin nema ég sjálf að segja mér að óttast að biðja um eitthvað. Það tók mig nokkurn tíma að læra að kyngja þessum ótta og átta mig á að ég á fullan rétt á að biðja um hluti.

Ótti við að missa fleiri
Að óttast að missa fleiri tengist á ákveðinn hátt því að óttast höfnun. Stærsta höfnun sem ég hef upplifað í mínu lífi er andlát pabba. Pabbi var maður sem fyrirleit sjálfsvíg. Hann sagði alltaf að það væri ekki rétta leiðin til að fara. Engum datt í hug að hann myndi fara svona en hið ómögulega getur gerst og það gerðist. Flestir hugsa "það gerist ekkert við mig eða mína". Það er ósjálfráð hugsun sem kemur í veg fyrir að fólk nagi á sér handarbökin af áhyggjum vegna ástvina á hverjum degi. Það er ekki nema í sérstökum aðstæðum sem fólki finnst rétt að hafa áhyggjur. Mér finnst alltaf rétt að hafa áhyggjur.

Að forðast að tala um sorgina
Sú manneskja sem ég tala hvað mest við um sorgina eða pabba yfir höfuð er mamma. Ef fólk spyr mig þá svara ég hreinskilnislega en ég hef aldrei verið týpan sem talar mjög opinskátt um tilfinningar sínar. Ástæðan fyrir því er einföld; mér finnst of erfitt að tala um sorgina og pabba og vil ekki að fólki líði óþæginlega ef ég fer að tala um hann. Að tala um hann við fólk er eitthvað sem ég þarf bara að æfa mig í.

Tilfinningarúnk yfir tilfinningaklámefni
Mér finnst pínu skrítið að segja þetta en ég hef oft átt mjög erfitt með að gráta, jafnvel í einrúmi þó mér finnist ég þurfa þess. Stundum er ég ekki búin að geta grátið í nokkrar vikur og fer svo að horfa á bíómynd eða þátt og þá allt í einu græt ég. Disney er tilfinningaklámefni, hverjum datt í hug að gera barnamyndir svona sorglegar? Ég mun örugglega aldrei skilja hvers vegna ég græt yfir Lion king og Mulan en ekki mínum eigin hugsunum.


Tilgangur þessarar færslu er einungis að koma hugsunum mínum á blað. Það er engin tilfinning rétt eða röng þegar kemur að sorg og sorgarferlið er mismunandi eftir hverjum og einum. Ég skrifa til að auðvelda mér ferlið sem er langt því frá að vera búið.

-Freydís






Sunday, January 1, 2017



Gleðilegt nýtt ár.

Fyrir árið 2016 setti ég mér það nýársheit að vera góð við sjálfa mig. Ég byrjaði árið með mjög brotna sjálfsmynd. Ég hafði orðið fyrir kynferðisofbeldi á árinu 2015 og glímdi einnig við átröskun. Ég ætlaði því að gera sjálfri mér þann greiða að taka mér pásu frá skóla og fara í meðferð við átröskuninni minni hjá átröskunarteymi Landsspítalans. Ég var varla byrjuð í meðferðinni þegar fjölskyldan mín varð fyrir því mikla áfalli að pabbi minn tók sitt eigið líf. Það má því segja að ég hafi ekki verið mjög bjartsýn fyrir árinu 2016.

Andlát pabba var eins og að verða undir valtara og þegar ég lít til baka finnst mér eins og ég hafi verið lömuð í nokkra mánuði. Á sama tíma var það eins og spark í rassinn fyrir mig að uppgötva hvað lífið er stutt. Veikindi pabba urðu mín helsta hvatning til að vinna í sjálfri mér. Ég gat ekki klárað átröskunnarmeðferðina en ég held ég hafi ekki þurft þess. Ég gat nýtt mér þau verkfæri sem mér höfðu verið gefin til þess að hífa sjálfa mig upp. Ég er kannski ekki “læknuð” af átröskun en hún er ekki eins stór hluti af mínu daglega lífi lengur.

Þótt árið 2016 hafi verið mjög erfitt þá var það ekki alslæmt. Ég held ég geti sagt að það hafi verið viðburðaríkasta árið í mínu lífi hingað til. Ég fór í þrjár utanlandsferðir, fyrst til Spánar með mömmu minni þar sem við höfðum það notalegt, svo til Noregs með mömmu, systur minni og systurdóttur minni þar sem við heimsóttum vini og ættingja og áttum mjög góðar stundir og að lokum fór ég til Finnlands á norræna ungmennaráðstefnu á vegum Amnesty international og var í heila viku að læra um réttindi flóttamanna. Ég fór líka á tónlistarhátíðirnar Eistnaflug og Norðanpaunk með kærastanum mínum og fleiri frábærum einstaklingum. Í haust byrjaði ég aftur í skólanum og náði öllum áföngunum mínum,  það hefur ekki gerst síðan ég var nýnemi. Það er eiginlega ekki hægt að segja að svo viðburðaríkt ár hafi verið ömurlegt þótt það hafi verið erfitt.          

Árið 2017 er enn óskrifað blað. Ég ætla mér að endurnýta nýársheit 2016 og halda áfram að vera góð við sjálfa mig. Til þess að skora smá á sjálfa mig í leiðinni langar mig að læra að láta ekki skoðanir annara hafa áhrif á mig. Maður er alltaf að reyna að bæta eitthvað hjá sjálfum sér og fyrir mér er það freistandi tilhugsun að geta gert það sem mig langar án þess að hafa áhyggjur af því hvað öðrum finnst um mig eða það sem ég geri.          

                                                                                                                                                                                                                                                               
-Freydís