Monday, February 20, 2017

minimalískar pælingar...


Ég hef lengi haft áhuga á minimalískum lífsstíl og pirra mig oft á því hvað ég á mikið af drasli. Það var aðeins nýlega sem ég fattaði að síðastliðna 6 mánuði hef ég líklega verið minimalískari en nokkru sinni fyrr.

Í lok síðasta sumars seldi mamma húsið okkar og við tók tímabil á meðan við biðum eftir að nýja íbúðin okkar yrði tilbúin þar sem við bjuggum heima hjá föðurafa mínum og ömmu og deildum þar litlu svefnherbergi. Í svefnherberginu var rétt pláss fyrir rúmið hennar mömmu, svefnsófa sem þjónaði mér sem rúm, fataskáp sem við deildum og tvö náttborð. Ég hafði því ekki pláss fyrir nærri því allt dótið mitt og ég held að það hafi verið nokkuð lærdómsríkt fyrir mig.

Þegar við settum búslóðina okkar í geymslu gerði fjölskyldan mín mikið grín af því að helmingurinn af dótinu væru kassar merktir fötum eða skóm frá mér. Ég tók það auðvitað ekkert inn á mig enda föt og tíska áhugamál hjá mér en áhugamál þróast og mitt áhugamál þróaðist frá því að vilja eiga eins mikið af fötum og hægt er. Þó að fötin sem ég tók með mér í upphafi hafi aðeins verið brotabrot af því sem ég setti í geymslu og ég hafi keypt mér nokkrar nýjar flíkur á þessum 6 mánuðum þá hefur fataskápurinn minnkað um allavega helming.

Ef ég pæli í því hvers ég hef mest saknað eru það þó alls ekki fötin. Ég hef eiginlega komist að því að þau skipta mig voða litlu máli. Það sem ég hef án efa mest saknað er rúmið mitt. Þá er ég bæði að tala um húsgagnið og rýmið. Ég kann alltaf meira og meira að meta það að vera alein og ég sé það í hyllingum að geta verið ein í stóra mjúka rúminu mínu með sængurnar mínar og fullt af koddum bara að tjilla. Verja tíma með sjálfri mér án truflanna.


Þegar ég ímynda mér hvernig ég vil hafa herbergið mitt togast ég alltaf nær einfaldleikanum. Ég hafði alltaf hugsað mér að fá mér kannski sófa, vera með snyrtiaðstöðu og fataskáp yfir heilan vegg en núna held ég að ég vilji hafa bara það allra nauðsynlegasta. Hvað það er hef ég ekki alveg fengið á hreint en það kemur líklega í ljós.






-Freydís



No comments:

Post a Comment