Þeir sem þekkja mig vel vita að notuð föt eru ástríða hjá mér. Það er ákveðin spenna sem fylgir því að fara í fjársjóðsleit á nytjamarkað og tilfinningin sem fylgir því að finna gersemar á lítinn pening er eins og að vinna í lottó (hef samt aldrei unnið í lottó). Kostirnir við það að versla notuð föt eru óteljandi. Þau eru oft ódýrari en alveg ný föt, margir nytjamarkaðir nota gróðann til þess að styrkja góð málefni og svo er bara einhver sjarmi yfir gömlum fötum. Hér eru nokkrar af mínum uppáhalds flíkum og sagan hvernig þær komust í mínar hendur.
babydoll náttbolur
Þennan bol keypti ég í búð sem hét Hosíló sem var lengi á Selfossi. Ég held ég hafi verið svona 14 ára þegar ég keypti þennan bol og svo endaði hann uppi á háalofti í nokkur ár. Síðustu 3 árin hef ég samt notað hann mjög mikið og elska að klæðast honum yfir rúllukragabol eða kjól. Svona bolir voru mjög vinsæll náttklæðnaður á sjöunda áratugnum (ca 1960). Fyrir mér er þetta hinn fullkomni bolur til að dressa upp eða niður eftir tilefnum.
Ralph Lauren peysa
Ég rakst á þessa peysu á nytjamarkaði í Barcelona þegar ég fór þangað í skólaferðalag í mars á þessu ári og þið trúið varla hvað ég var spennt þegar ég fann peysuna. Þetta var í eitt af þessum skiptum þar sem allir bekkjarfélagar mínir höfðu farið í H&M og ég ekki nennt með. Það leit engan veginn út fyrir að neitt spennandi gæti leynst í þessari búð en ég var ekki búin að róta lengi þegar ég fann peysuna og hún kostaði ekki nema 15 evrur!
Versace satínskyrta
Þessa gullfallegu satínskyrtu græddi ég þegar kærastinn minn aðstoðaði foreldra vinar síns að taka til í fataskápum heimilisins. Þegar hann nefndi að ég hefði áhuga á gömlum fötum var mér eiginlega skipað að koma og fara í gegnum fötin sem þau ætluðu að losa sig við og ég sé ekki eftir því! Ég hef fengið mjög mikil not út úr þessari skyrtu sem er bæði hrikalega falleg og þægileg.
Þar til næst
Freydís
No comments:
Post a Comment