Gleðilegt nýtt ár.
Fyrir árið 2016
setti ég mér það nýársheit að vera góð við sjálfa mig. Ég byrjaði árið með mjög
brotna sjálfsmynd. Ég hafði orðið fyrir kynferðisofbeldi á árinu 2015 og glímdi
einnig við átröskun. Ég ætlaði því að gera sjálfri mér þann greiða að taka mér
pásu frá skóla og fara í meðferð við átröskuninni minni hjá átröskunarteymi Landsspítalans.
Ég var varla byrjuð í meðferðinni þegar fjölskyldan mín varð fyrir því mikla
áfalli að pabbi minn tók sitt eigið líf. Það má því segja að ég hafi ekki verið
mjög bjartsýn fyrir árinu 2016.
Andlát pabba var
eins og að verða undir valtara og þegar ég lít til baka finnst mér eins og ég
hafi verið lömuð í nokkra mánuði. Á sama tíma var það eins og spark í rassinn
fyrir mig að uppgötva hvað lífið er stutt. Veikindi pabba urðu mín helsta
hvatning til að vinna í sjálfri mér. Ég gat ekki klárað átröskunnarmeðferðina
en ég held ég hafi ekki þurft þess. Ég gat nýtt mér þau verkfæri sem mér höfðu
verið gefin til þess að hífa sjálfa mig upp. Ég er kannski ekki “læknuð” af
átröskun en hún er ekki eins stór hluti af mínu daglega lífi lengur.
Þótt árið 2016 hafi verið
mjög erfitt þá var það ekki alslæmt. Ég held ég geti sagt að það hafi verið
viðburðaríkasta árið í mínu lífi hingað til. Ég fór í þrjár utanlandsferðir,
fyrst til Spánar með mömmu minni þar sem við höfðum það notalegt, svo til
Noregs með mömmu, systur minni og systurdóttur minni þar sem við heimsóttum
vini og ættingja og áttum mjög góðar stundir og að lokum fór ég til Finnlands á
norræna ungmennaráðstefnu á vegum Amnesty international og var í heila viku að
læra um réttindi flóttamanna. Ég fór líka á tónlistarhátíðirnar Eistnaflug og
Norðanpaunk með kærastanum mínum og fleiri frábærum einstaklingum. Í haust
byrjaði ég aftur í skólanum og náði öllum áföngunum mínum, það hefur ekki gerst síðan ég var nýnemi. Það
er eiginlega ekki hægt að segja að svo viðburðaríkt ár hafi verið ömurlegt þótt
það hafi verið erfitt.
Árið 2017 er enn óskrifað blað. Ég
ætla mér að endurnýta nýársheit 2016 og halda áfram að vera góð við sjálfa mig.
Til þess að skora smá á sjálfa mig í leiðinni langar mig að læra að láta ekki
skoðanir annara hafa áhrif á mig. Maður er alltaf að reyna að bæta eitthvað hjá
sjálfum sér og fyrir mér er það freistandi tilhugsun að geta gert það sem mig
langar án þess að hafa áhyggjur af því hvað öðrum finnst um mig eða það sem ég
geri.
-Freydís
No comments:
Post a Comment