Thursday, January 19, 2017

nokkur einkennileg sorgareinkenni


Í janúar í 2016 tók pabbi minn sitt eigið líf. Við tóku mjög súrrealískir tímar hjá mér og fjölskyldunni minni og hefur sorgarferlið verið mismunandi hjá okkur öllum. Sum einkenni sorgarinnar gætu virðst einkennileg en eru þó alveg eðlileg. Hér fyrir neðan eru nokkur atriði sem ég hef fundið fyrir á þessu eina ári síðan pabbi minn dó.

Minni einbeiting
Einbeitingin hjá mér hvarf algjörlega. Ég hef alltaf verið mikill lestrarhestur en árið 2016 las ég ekki eina einustu bók mér til skemmtunnar. Ég einfaldlega hafði ekki einbeitinguna í það. Þegar ég byrjaði svo í skólanum í haust þurfti ég að hafa mig alla við að sinna náminu. Ég á það líka til að detta út og fá störu út í loftið. Þá heyri ég ekkert sem gerist í kringum mig og varla hægt að ná sambandi við mig.

Ótti við höfnun
Ótti við höfnun er eðlileg tilfinning. Ég held að langflestir upplifi þann ótta öðru hvoru. Á tímabili var ég þannig að ég þorði varla að biðja um neitt. Ég átti erfitt með hluti eins og að hafa samband við vinkonur mínar af fyrra bragði eða biðja kennarana mína um skilafresti á verkefnum. Ég sá alltaf fyrir mér að manneskjan yrði reið. Hvaða rétt á ég til að biðja um eitthvað? Að óttast höfnun er tilfinning sem er algjörlega eðlileg en er yfirleitt órökstudd tilfinning. Það var engin nema ég sjálf að segja mér að óttast að biðja um eitthvað. Það tók mig nokkurn tíma að læra að kyngja þessum ótta og átta mig á að ég á fullan rétt á að biðja um hluti.

Ótti við að missa fleiri
Að óttast að missa fleiri tengist á ákveðinn hátt því að óttast höfnun. Stærsta höfnun sem ég hef upplifað í mínu lífi er andlát pabba. Pabbi var maður sem fyrirleit sjálfsvíg. Hann sagði alltaf að það væri ekki rétta leiðin til að fara. Engum datt í hug að hann myndi fara svona en hið ómögulega getur gerst og það gerðist. Flestir hugsa "það gerist ekkert við mig eða mína". Það er ósjálfráð hugsun sem kemur í veg fyrir að fólk nagi á sér handarbökin af áhyggjum vegna ástvina á hverjum degi. Það er ekki nema í sérstökum aðstæðum sem fólki finnst rétt að hafa áhyggjur. Mér finnst alltaf rétt að hafa áhyggjur.

Að forðast að tala um sorgina
Sú manneskja sem ég tala hvað mest við um sorgina eða pabba yfir höfuð er mamma. Ef fólk spyr mig þá svara ég hreinskilnislega en ég hef aldrei verið týpan sem talar mjög opinskátt um tilfinningar sínar. Ástæðan fyrir því er einföld; mér finnst of erfitt að tala um sorgina og pabba og vil ekki að fólki líði óþæginlega ef ég fer að tala um hann. Að tala um hann við fólk er eitthvað sem ég þarf bara að æfa mig í.

Tilfinningarúnk yfir tilfinningaklámefni
Mér finnst pínu skrítið að segja þetta en ég hef oft átt mjög erfitt með að gráta, jafnvel í einrúmi þó mér finnist ég þurfa þess. Stundum er ég ekki búin að geta grátið í nokkrar vikur og fer svo að horfa á bíómynd eða þátt og þá allt í einu græt ég. Disney er tilfinningaklámefni, hverjum datt í hug að gera barnamyndir svona sorglegar? Ég mun örugglega aldrei skilja hvers vegna ég græt yfir Lion king og Mulan en ekki mínum eigin hugsunum.


Tilgangur þessarar færslu er einungis að koma hugsunum mínum á blað. Það er engin tilfinning rétt eða röng þegar kemur að sorg og sorgarferlið er mismunandi eftir hverjum og einum. Ég skrifa til að auðvelda mér ferlið sem er langt því frá að vera búið.

-Freydís


1 comment:

  1. Flottar konur þið mæðgur. Fróðleg lesning. Bið að heilsa í kotið. Oddur

    ReplyDelete