Sunday, May 28, 2017

Einkunnir og helgarfrí!


Í vikunni fékk ég loksins einkunnirnar mínar fyrir vorönnina í skólanum og mér til mikillar gleði náði ég öllu. 40 f-einingum eða 8 áföngum með frábærum einkunnum. Önnin var vægast sagt strembin og ég var oft við það að gefast upp. Ég veit ekki hversu oft ég grenjaði undan álaginu í skólanum sem bættist ofan á flutninga og sorgina. Þótt það sé freistandi að tala eingöngu um það hversu ánægð ég sé og stolt af sjálfri mér fyrir að hafa staðið mig svona vel í skólanum þá finnst mér ég ekki geta sleppt því að fjalla um báðar hliðarnar.
Á þriðjudagsmorguninn beið ég spennt eftir því að einkunnirnar birtust á Innu og það láku gleðitár þegar ég hringdi í mömmu mína og sagði henni hversu vel mér hafði gengið. Þegar ég skellti á breyttust gleðitárin hinsvegar í sorgartár og ég lá í rúminu í góða stund og grét úr mér augun af söknuði til pabba míns. Ég var sorgmædd, sár og reið yfir því að geta ekki deilt þessum gleðifréttum með honum og fá ekki að heyra hann segja að hann væri stoltur af mér. Ég get auðveldlega heyrt hann segja það í huganum því hann hafði oft sagt mér það og það er sárt að þurfa að sætta sig við það eingöngu. Á sama tíma fannst mér svo skrýtið að líða svona. Að vera glöð og stolt af sjálfri mér en samt sorgmædd.
Helginni eyddi ég svo í Feneyjum með vinkonu minni og náði að fagna og gleðjast yfir góðum árangri í skólanum og bara lífinu sjálfu. Við skoðuðum borgina vítt og breytt, borðuðum æðislegan mat og mikið af ís. Feneyjar eru eins og völundarhús og það er ekkert mál að rölta um heilan dag án þess að hafa hugmynd um hvar maður sé. Þannig labbaði ég um það bil 35 kílómetra yfir helgina á sandölum takk fyrir pent.





Þar til næst
Freydís


No comments:

Post a Comment