Monday, May 8, 2017

Ég er að pakka!


jæja, þá er komið að því. Þegar ég birti þessa færslu er ég líklegast búin að pakka og farin af stað en ég ætla að gerast landkönnuður og stinga af frá Íslandi í sumar. Ég er að fara til Ítalíu og ætla að vera þar sem aupair næstu fjóra mánuði. Gaman gaman. 

Ég pantaði flugið út í janúar og þá var ég meira að hugsa um að kaupa sem ódýrastann miða frekar en að ég væri að flytja erlendis í fjóra mánuði og þyrfti kannski að taka með mér eitthvað af dóti. Því er það svo að ég má taka með mér eina tuttugu kílóa tösku og fimm kílóa handfarangur. 

Það er því ekkert annað í stöðunni en að vera svolítið minimalísk og vegna þess hvað ég er sjálf forvitin að eðlisfari, búin að lesa örugglega skrilljón pökkunnarblogg og horfa á ótal how to - myndbönd þá langaði mig að deila mínum (nokkuð) minimalíska farangi. 




Ég ætla ekkert að fara svo náið út í hverja og eina flík því þá yrði þessi færsla allt of löng, en þetta eru í kring um 30 flíkur + nærföt, sokkar og sundföt. Ég reyndi bara að passa að hafa jafnvægi á efri og neðri flíkum, að ég geti klætt allt upp eða niður eftir tilefnum og að ég geti bætt á eða fækkað fötum eftir veðri. 



Snyrtitaskan mín endar alltaf úttroðin og yfirleitt tek ég eina tösku fyrir snyrtivörur og aðra fyrir málningardót. Ekki núna því ég ætla ekki að taka neitt málningardót með mér. Það er ákveðin áskorun á sjálfa mig en ég er búin að vera að æfa mig upp á síðkastið að vera ómáluð við hin ýmsu tilefni. Ég ætti alveg að geta komist af eitt sumar án þess að mála mig og njóta þess bara að vera brún, freknótt og sæt. 



Þá er allt komið í töskuna og ég held ég hafi ekki gleymt neinu. Engu mikilvægu allavega. Hér eru líka þeir skór sem ég ætla að hafa með mér, túrtaskan mín (þessi bleika með fiðrildunum), lyf, taupokar og í röndóttu töskunni eru raftæki. Ekki má heldur gleyma smá broti af Íslandi til að gefa aupair-fjölskyldunni minni þarna úti. Harðfiskur, lakkrís og Sjálfstætt fólk. Þarf eitthvað meira?


Fyrir sumum er þetta kannski ekkert svo minimalískur farangur og ef ég á að segja alveg satt þá var taskan öööörlítið í yfirvigt en það slapp. Kenni Laxness um.
 

Chiao!
-Freydís Leifs








2 comments:

  1. Góða ferð mín kæra! Ítalía er yndi, sérstaklega að prófa hversdagslífið þar. Njóttu vel og með opnum huga! :)

    ReplyDelete
    Replies
    1. Takk elsku Ragnheiður, ætla sko að njóta! Verð hjá Ítalskri fjölskyldu svo hversdagslífið ætti ekki að fara framhjá mér.

      Delete