Friday, May 5, 2017

Ég smíðaði mér húsgagn!Ég smíðaði mér borð í skólanum í vetur og langaði að segja aðeins frá því. 

Í vetur þegar ég var að velja fyrir vorönnina í skólanum var ég kominn með mjög mikinn námsleiða. Mig langaði því að prófa eitthvað alveg nýtt og komst að því að skólinn minn býður upp á trésmíði sem valáfanga. Mig langaði mjög að prófa að taka smíðaáfanga því ég hef mikinn áhuga á fallegum húsgögnum en var mjög tvístígandi því mig grunaði að ég yrði eina stelpan og það þótti mér nokkuð óþæginleg tilhugsun. Ég ákvað þó að láta það ekki á mig fá og láta vaða í þennan "strákaáfanga". 
 Ég hef aldrei upplifað það að vera eina stelpan áður og miðað við það að einhver spurði hvort ég væri VILLT þegar ég mætti í fyrsta tímann þá held ég að strákarnir hafi ekki verið að búast við mér sem bekkjarfélaga. 
Ég fékk alveg að upplifa að ég væri eina stelpan og til að byrja með held ég að nokkrir strákanna hafi verið smá smeykir við mig (ekki veit ég afhverju). Í flestum áföngum sem ég hef verið í hingað til hef ég orðið málkunnug einhverjum og getað spjallað við í tímum en ekki í þessum áfanga. Það var ekki fyrr en í næstsíðustu vikunni að einn strákanna þorði að tala við mig og spurði hvað ég væri að smíða. 
Ég verð að viðurkenna að þetta var alveg pínu erfið önn og ég hugsaði oft um að hætta í áfanganum en ég er mjög fegin að hafa ekki gert það. Ég er mjög stolt af afrakstri áfangans sem er þetta undurfallega borð.
Ég hannaði það með smá innblæstri frá pinterest en það er úr furu sem ég lakkaði svo með tekklituðu lakki. Mér líður pínu eins og þetta sé litla barnið mitt. Ég veit að það er alls ekki jafnt fullkomið og ef ég hefði keypt mér borð úti í búð en mér finnst "gallarnir" bara gefa því persónuleika. 
Ég ætlaði mér ekki að hafa þessa færslu svona persónulega en það bara gerðist. 

Þar til næst
-Freydís


2 comments: