Nú eru sirka tvær vikur síðan ég kom heim úr sumarævintýrinu mínu og ég er eiginlega bara enn að lenda. Þetta sumar var skemmtilegt, spennandi, erfitt og í alla staði frábært og ég get sko alveg mælt með því að gerast aupair í smá tíma fyrir þá sem eru með útþrá á háu stigi, námsleiða, í lausu lofti eða bara langar að prófa eitthvað nýtt. Yfir sumarið fékk ég nokkrar spurningar sem tengdust aupairstarfinu og langar mig að svara nokkrum þeirra í þessari færslu.
Hvernig verður maður aupair?
Ég fann fjölskylduna mína í gegnum síðuna
Aupairworld.com en þar geta bæði host-fjölskyldur og aupair-ar skráð sig (aupair skrá sig frítt en host-fjölskyldur borga áskrift af öryggisástæðum). Þar bjó ég mér til aðgang, skrifaði smá texta um sjálfa mig, setti inn myndir og ferilskrá, valdi hvaða landa mig langaði til og hversu lengi mig langaði að vera. Þá gátu fjölskyldur frá þeim löndum skoðað prófílinn minn og sent mér skilaboð og ég gat einnig skoðað fjölskyldur sem mér leist á. Ég var búin að vera í samskiptum við um það bil 10-20 fjölskyldur á um það bil þriggja vikna tímabili þegar ég valdi fjölskyldu sem mér leist best á og þeim leist rosa vel á mig líka. Eftir það hófust umræður um það hvernig við vildum hafa allt, við ræddum aupair-samninginn fram og tilbaka, vinnutíma og mitt hlutverk inni á heimilinu, hvað skyldi gera við hvaða aðstæður sem er og í janúar 2017 bókaði ég flug til Ítalíu.
Þarf að kunna tungumálið?
Ég kunni ekki stakt orð í ítölsku þegar ég kom og samskipti við börnin voru pínu flókin til að byrja með. Mitt hlutverk var að tala ensku við börnin og foreldrarnir vissu að ég kynni ekki ítölsku. Þetta reddaðist svosem allt, krakkarnir lærðu einhverja ensku og ég slatta ítölsku en það fer algjörlega eftir fjölskyldum og löndum hvort það þurfi að kunna tungumálið. Það er þó alltaf betra að geta reddað sér í landinu sem maður ætlar að dvelja í.
Kostar mikið að vera aupair?
Ég var búin að safna mér um það bil 200 þúsund til að hafa í varasjóð áður en ég fór út í maí og sá peningur lá óhreyfður á bankabók allan tímann sem ég vann sem aupair, svo í ágúst þegar ég fór að ferðast þá gat ég notað þann pening. Fjölskyldan á að borga flest fyrir mann en svo fer það eftir samkomulagi hvort maður borgi sjálfur bæði flugin (út og heim) eða hvort fjölskyldan borgi annað hvort. Það fer einnig eftir samkomulagi hvort fjölskyldan borgi samgöngukostnað á ákveðnu svæði.
Fær maður vel borgað?
Það er ekki talað um laun þegar maður er aupair heldur vasapening. Maður er ekki að vinna nema þá barnapössun og létt húsverk og vinnutími má aldrei fara yfir 5 klukkutíma á dag. Það er misjafnt eftir löndum, fjölskyldum og vinnutíma hvað vasapeningurinn er mikill en á Ítalíu er venjan ca 65-100 evrur á viku minnir mig.
Varstu heppin með fjölskyldu?
Ég tel mig hafa verið mjög heppna með fjölskyldu en það er ekki þar með sagt að lífið hafi verið eintómur dans á rósum. Þeir sem fara út sem aupair og segjast hafa verið hjá FULLKOMRI fjölskyldu eru einfaldlega að ljúga... Það er engin fullkomin fjölskylda til. Börnin gátu oft verið erfið og þau gátu alveg grenjað og öskrað bæði á mig, hvert á annað og á foreldra sína. Stundum vissi ég ekkert hvað ég átti að gera og stundum voru allir pirraðir. Ég held að þannig sé það hjá öllum fjölskyldum. Íslenskum, erlendum með aupair eða án. Ég ákvað það bara strax að ég væri ekki uppeldisaðilinn. Ég er ekki foreldri, hef aldrei alið upp barn og get ekki vitað betur en foreldrarnir sjálfir svo ég passaði mig bara að fylgja þeirra reglum og vera dugleg að spurja ef ég var ekki viss.
Fékkstu aldrei heimþrá?
Ó jú, svo sannarlega. Fyrsta kvöldið mitt grét ég mig í svefn því ég hélt ég væri að gera hræðileg mistök að fara langt í burtu frá öllu og öllum sem ég þekkti. Þetta vandist nú samt furðu vel og heilt yfir litið fékk ég ekkert svo oft heimþrá. Heimþrá er ekki af hinu slæma, það væri nú frekar að eitthvað væri ekki í lagi ef maður fengi alls enga heimþrá. Ég tel mig mikið sterkari og sjálfstæðari manneskju eftir þetta allt saman.
Nú tekur íslenska haustið við mér. Ég er á fullu í skólanum, stefni á útskrift í vetur og ætla að sjálfsögðu að halda áfram að skrifa um það sem mér dettur í hug. Einnig er ég mjög dugleg á instagram og heiti þar
freydis97.
Mig langar að segja takk kærlega fyrir mig við alla sem fylgdust með Ítalíuævintýrinu mínu og ég vona að sem flestir haldi áfram að fylgjast með mér.
Hér fyrir neðan er brot af þeim myndum sem ég tók síðasta mánuðinn úti. Ég fékk tvær heimsóknir, fyrst kom kærastinn minn svo mamma mín og á leiðinni heim til Íslands kíktum við mamma til Þýskalands. Myndirnar eru allar í rugli og koma ekkert endilega fyrir í réttri röð.
|
Flórens |
|
Flórens |
|
Róm |
|
Róm |
|
Róm |
|
Róm |
|
Róm |
|
Róm |
|
Róm |
|
Róm |
|
Róm |
|
Róm |
|
Róm |
|
Róm |
|
Flórens |
|
Munchen |
|
Munchen |
|
Munchen |
|
Róm |
|
Róm |
|
Munchen |
-Freydís
No comments:
Post a Comment