Saturday, September 2, 2017

DIY skipulagsdagbók!

Heil og sæl, 
ég hef ekkert verið neitt ofsalega dugleg að skrifa færslur upp á síðkastið aðallega vegna þess að ég hef verið upptekin við það að ferðast og njóta seinustu daganna minna erlendis. Ég er stödd í München í Þýskalandi eins og er en kem heim aðfaranótt 6. september og þá verða komnir 4 mánuðir síðan ævintýrið mitt hófst. Ég ætla mér að skrifa færslu um ferðalögin mín síðastliðinn mánuðinn en nú ætla ég að koma mér að efni þessarar færslu.


Ég er algjör skipulagsfíkill og er mjög picky þegar kemur að því hvernig ég skipulegg mig. Ég hef prófað alls konar fyrirfram-planaðar dagbækur og komist að því að þær pirra mig óskaplega. Það sem pirrar mig mest við þær er hvað það verður mikil sóun ef maður er ekki að skipuleggja hvern einasta dag og oft er alls konar auka drasl á síðunum sem taka bara pláss. 

Ég var alltaf pínu smeik við bullet journal systemið en það leit út fyrir að vera svo tímafrekt svo í fyrravetur þegar ég byrjaði aftur í skólanum eftir smá pásu ákvað ég að prófa að nota bara litla stílabók undir skipulagið mitt og mér fannst það virka ágætlega. 

Stílabókin sem ég notaði í fyrravetur. Hún er úr sösterene grene og kostaði að mig minnir 700kr
Í sumar fann ég fyrir tilviljun litla og krúttlega verslun í Feneyjum sem selur alls konar handgerðar dagbækur, stílabækur, bréfsefni og fleira. Maðurinn sem rekur verslunina heitir Paolo Olbi og eftir að spjalla við hann stóðst ég ekki mátið og keypti mér þessa gullfallegu bók til að nota sem skipulagsdagbók (svo nú nota ég næstum-því bullet journal til að skipuleggja mig).


Þar sem bókin var alveg tóm, ekki línustrikuð eða fagskipt eða neitt þá ákvað ég að föndra smá og skipta bókinni upp í 5 hluta. Ég tók eina opnu úr miðju bókarinnar til að nota í merkimiðanna, svo tók ég appelsínugult karton úr föndurhorni aupairfjölskyldunnar minnar og gerði þessa litlu krúttlegu miða og límdi inn í bókina.


Ég skipti bókinni upp í fimm hluta. Fremst er ég með "á döfinni" þar sem ég geri dagatöl fyrir hvern mánuð og skrifa hjá mér mikilvæga hluti eins og t.d. tannlæknatíma, flug eða áminningar um áríðandi hluti.... svo er ég með allt sem tengist skólanum á einum stað, vinnan á öðrum, bloggið og svo aftast er ég með allskonar þar sem ég get haft hvað sem mér dettur í hug eins og tiltektar to-do lista eða nestistplön fyrir vikuna. Hér er dagatal fyrir september. Fyrir mér er mikilvægast að hafa hlutina sem einfaldasta svo ég ákvað að skrifa bara upp dagsetningarnar og svo geri ég lista fyrir neðan ef það er eitthvað sérstakt á döfinni hjá mér. 

Ég ákvað að teikna upp stundatöfluna mína í skólanum vegna þess að ég man hana aldrei. Hver áfangi á sinn eigin lit (já, svona eins og í fyrsta bekk í grunnskóla) því það auðveldar mér að muna hvaða tíma ég er að fara í. Ég er einnig með möppur undir allar glósur og námsefni og möppurnar eru í sömu litum og hver áfangi. Paolo fannst svo gaman að spjalla að hann gaf mér svona fallegt bókamerki með stafnum mínum. Ég fattaði það svo eftirá að hann hafði ruglast á dagsetningum. Það stendur 28. júlí en ég keypti bókina 29. júlí en mér finnst það bara skondið.

Allt í allt tók þetta föndur um það bil klukkutíma. Mér finnst mikilvægt að hið daglega skipulag taki sem minnstan tíma en fyrir mér er það hluti af hinum mínimalíska lífsstíl að velja vel í hvað maður ver tímanum.  Ég reyndi því eftir bestu getu að haga bókini þannig að ég geti skipulagt mig fljótt og örugglega án þess að sóa blaðsíðum. 

Ég er að spá í að hafa fastan lið hér á blogginu mínu í september tileinkaðan skólanum og skipulagi. Ég er með nokkrar færslur planaðar sem ég hlakka til að deila svo endilega fylgist með.

-Freydís

No comments:

Post a Comment