Nú er dvölin mín hér á Ítalíu næstum hálfnuð, tveir mánuðir alveg að verða búnir og bara tveir eftir. Mér finnst tíminn ekkert smá fljótur að líða! Ég er búin að eignast æðislegar aupair-vinkonur sem gera þetta ferðalag mitt margfalt skemmtilegra og er dugleg að fara bæði inn í Treviso og Feneyjar með þeim. Ég fór líka til Verónu fyrir stuttu með Marianne, vinkonu minni þar sem við skoðuðum meðal annars hús Júlíu (þar sem sagan um Rómeó og Júlíu átti að eiga sér stað).
Um helgina fór ég með aupair-fjölskyldunni minni til Caorle þar sem við fórum meðal annars á ströndina, borðuðum slatta af ís og eyddum tíma í að rölta um þennan fallega bæ. Ég hef ekki verið neitt sérstaklega dugleg hingað til að eyða frítímanum mínum með fjölskyldunni því ég hef verið svo upptekin við að skoða mig um og hitti vinkonur mínar nær allar helgar. Ég skemmti mér mjög vel um helgina og þótt það sé mikilvægt að upplifa landið með einhverjum á svipuðu reki og ég þá held ég að það sé ekki síður mikilvægt að eyða tíma saman með fjölskyldunni án alls stress sem oft fylgir virkum dögum.
Elena, Gioia, Jasmine |
-Freydís
No comments:
Post a Comment